31. mars - 6. apríl
Section outline
-
Málfarsmunur er ekki aðeins staðbundinn heldur getur hann líka tengst félagslegum aðstæðum fólks. Þættir eins og menntun, aldur, stétt, starf, kyn og margt fleira geta haft áhrif á hvernig við tölum, bæði orðalag og orðaval. Í þessari viku ætlum við að beina sjónum að ýmsum félagslegum þáttum sem áhrif hafa á máltjáningu og jafnframt kynna okkur ýmis málfarseinkenni sem tengja má þeim. Sum þessara málfarseinkenna hafa enn ekki hlotið viðurkenningu sem gott mál, þrátt fyrir að vera orðin gömul og gróin í málinu. Ekki er óalgengt að fólk sé dæmt fyrir málfar sitt og haft að skotspóni. Að sama skapi getur málfarsmunur verið vísbending um stétt og stöðu fólks, þótt e.t.v. eigi það síður við um Íslendinga en ýmsar nágrannaþjóðir okkar, ekki síst Breta. Það má e.t.v. rekja til þess að almennt er mállýskumunur lítill á Íslandi og við eigum ekki í vandræðum með að skilja hvert annað. Hið sama er ekki uppi á teningnum víða annars staðar þar sem mállýskumunur er svo mikill að gera þarf einhverri einni mállýsku hærra undir höfði og gera að ríkismáli, þá er um leið er búið að koma á stéttbundnu máli.
Áttið ykkur samt á að það er munur á mállýsku og málsniði. Mállýskubundin málfarseinkenni eru ekki bundin því við hvern eða við hvaða aðstæður talað er. Þau koma alltaf fram. Málsnið er háð aðstæðum eða viðmælanda. Við notum til dæmis annan orðaforða í daglegu tali í samanburði við það þegar við skrifum formlegan texta eins og ritgerðir eða ræður, eða ættum að minnsta kosti að gera það. Við tölum trúlega líka öðruvísi við ömmu og afa en vini okkar. Munurinn getur t.d. falist í talhraða (og þar af leiðandi skýrleika), orðavali og látbragði.
Lesefni vikunnar:
- Kafli 4.3 í Tungutaki: Félagslegum málvísindum
- Glærur: Kafli 4.3 í Tungutaki: Félagslegum málvísindum
- Bur, pistill eftir Eirík Rögnvaldsson, málfræðing, prófessor emeritus og málfarsaðgerðarsinna
- Brot úr tveimur þáttum af Orðbragði:
- Stofnanamál
- Starfstengt mál
Verkefni vikunnar:
- Verkefni II: Mállýskur og málsnið
- Verkefni: Hinsegin orðaforði
- Verkefni við stofnanamál, leyst samhliða áhorfi
- Verkefni við starfstengt mál, leyst samhliða áhorfi
- Hugleiðing um félagslega hlið tungumála, 50-100 orð
ATH! Munið að skrá ykkur í lokapróf í áfanganum. Það verður lagt fyrir þann 6. maí næstkomandi kl. 16:00-17:30.
-
Hér eru Nearpod-glærur fyrir kafla 4.3 en þær hafa það fram yfir hinar að fleiri og betri dæmi eru um ýmis félagsleg málbrigði. Auk þess er búið að lesa inn á þær og þeim því fylgt betur úr hlaði.
-
Verkefni við kafla 4.3 í Tungutaki: Félagslegum málvísindum. Sem fyrr er sett lágmarkseinkunnin 9 á verkefnið til þess að undirstrikað að lausn þess er ekki markmið í sjálfu sér heldur þekkingin sem þið öðlist við að vinna það. Þið hafið þrjár atlögur að lausn þess.
-
Í Bretlandi er hvað auðveldast að finna stéttbundinn mun sem tengist þjóðfélagsstöðu. Svonefndur RP-framburður einkennir yfirstéttina og efri millistétt, a.m.k. þá sem vilja gera sig gildandi á opinberum vettvangi. RP stendur fyrir 'received pronunciation' og Íslendingar kalla þennan framburð stundum Oxford ensku. Hér er viðtal bandarísks sjónvarpsmanns við enska leikarann Stephen Fry sem talar með RP-framburði.
-
Stjórnmálamenn og sérfræðingar eiga það sameiginlegt að hafa mörg orð um lítið efni. Í þessum þætti af Orðbragði er fjallað um stofnanamál. Myndskeiðið hefst á mín. 2:23 og er búið á mín. 8:53. Leysið verkefnið að neðan samhliða áhorfi.
-
Í 6. þætti fyrstu þáttaraðar af Orðbragði var stofnanamál m.a. tekið fyrir. Þáttinn er að finna hér að ofan. Horfið á myndskeiðið sem um ræðir og svarið spurningunum samhliða áhorfi. Sem fyrr hafið þið þrjár atlögur að lausn og lágmarkseinkunnin 9 er sett á til þess að minna á að lausn verkefnisins er ekki markmið í sjálfu sér heldur það sem þið lærið á því að leysa það.
-
Í þessum þætti af Orðbragði er fjallað um starfstengt mál. Fyrst og fremst er horft til sjómanna, lækna og bifvélavirkja. Umfjöllunin hefst á mín.: 2:46 og henni lýkur á mín.: 10:26. Horfðu á myndskeiðið og leystu verkefnið hér að neðan.
-
Horfðu á myndskeiðið um starfstengt mál í þáttaröðinni Orðbragði, sjá hér að ofan, og svaraðu eftirfarandi spurningum samhliða áhorfi. Sem fyrr er lágmarkseinkunnin 9 sett á verkefnið og atlögur að því 3.
-
Efni pistilsins tengist þörfinni fyrir nýyrði sem endurspegla veruleika hinsegin fólks og hvernig hún hefur verið leyst, bæði með því að búa til ný orð og endurnýta úrelt orð.
-
Tungumál gegna mikilvægu hlutverki í samskiptum eins og gefur að skilja. Til þess að þau virki sem slík þurfa þau að búa yfir orðum um allt milli himins og jarðar. Réttindabarátta hinsegin fólks undanfarna áratugi hefur haft í för með sér aukinn skilning á því að íslenska þarf að búa yfir orðum sem endurspegla veruleika allra Íslendinga með tilheyrandi nýyrðasmíð. Í þessu verkefni eigið þið að fletta upp ýmsum nýjum orðum sem tengjast hinsegin litrófinu í Hinsegin orðabók Áttavitans. Verkefnið sjáið þið þegar þið hafið smellt á hnappinn ný verkefnaskil.
-
Taktu saman efni vikunnar og tengdu þínum veruleika. Er eitthvað í umfjöllun vikunnar sem þú vissir ekki áður eða þér fannst athyglisvert? Er eitthvað í þínu málumhverfi sem er ekki á allra vörum og óinnvígðir eiga e.t.v. erfitt með að skilja, s.s. í tengslum við starf þitt, íþróttaiðkun eða tómstundir? Umfjöllunin ætti að vera 50-100 orð.