Skilgreining hugtaksins ensökun
Margt fólk á erfitt með að biðjast afsökunar verði þeim á í messunni. Það hefur því tilhneigingu til þess að draga úr afsökunarbeiðninni með orðavali sínu, réttlæta sinn hlut eða hreinlega varpa ábyrgðinni á aðstæður eða einhvern annan, jafnvel þolandann. Nýyrðin efsökun og ensökun eru hugtök sem ætlað er að varpa ljósi á þessa málnotkun. Skilgreiningu fyrir efsökun má finna hér að ofan. Erfiðara er að finna skilgreiningu á ensökun á netinu en í stórum dráttum felur hún í sér að mælandi biðst afsökunar EN ..., t.d.:
- Fyrirgefðu að ég særði þig en ég var rosa pirruð í gær.
- Fyrirgefðu að ég talaði illa um þig en þú ert bara svo pirrandi.
Í fyrra dæminu afsakar mælandi framkomu sína með líðan sinni. Við erum auðvitað misupplögð milli daga en það er ekki sanngjarnt gagnvart samferðafólki okkar að við látum það bitna á þeim. Seinna dæmið er mun alvarlegra en þar er ábyrgðinni á framkomu mælandans varpað á þolandann sem getur auðvitað alls ekki borið þá ábyrgð. Báðar afsakanir eiga það sameiginlegt að mælandinn axlar ekki ábyrgð á eigin gjörðum.
Þegar stjórnendum fyrirtækja eða stofnana verða á mistök gagnvart starfsfólki sínu eða viðskiptavinum hættir þeim til þess að skýla sér að baki fyrirtækisins með því að tala í nafni þess frekar en eigin nafni. Sökinni er svo oft skellt á óskilgreindar verklagsreglur sem hafi brugðist eða ekki verið nógu skýrar. Sjaldnast fylgir slíkri afsökunarbeiðni loforð um bót eða betrun eða lærdóminn sem stjórnendur ætla að draga af þessu. Dæmi um margt af þessu má t.d. sjá í tilkynningu frá fyrirtækinu Brim í kjölfar uppsagnar starfsmanns sem ekki gat unnið vegna andlegs áfalls:
Brimi þykir miður hvernig mál fyrrum starfsmanns félagsins hafa þróast en hann var sjómaður um borð á skipi félagsins á sjó úti þegar fréttir bárust af sorglegum atburði á Blönduósi fyrr á árinu þar sem fjölskylduvinir sjómannsins voru fórnarlamb árásar. Brim harmar að verkferlar félagsins hafi brugðist í þessu máli. Mikilvægt er að fyrirtækið sýni starfsfólki og aðstendum [svo] þess samúð og skilning við eins erfiðar aðstæður og komu upp í þessu tilviki. Brim mun endurskoða verkferla félagsins og viðbrögð við erfiðum áföllum starfsfólks. Að öðru leiti mun Brim ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna félagsins.