Hið ytra skiptast skáldsögur yfirleitt upp í hluta og kafla. Í hefðbundnum sögum er oft talað um að bygging skiptist í a) kynningu aðstæðna, b) átök (flækju) og c) lausn eða upphaf miðju og endi. Í flestum sögum þarf að kynna persónur og aðstæður þeirra áður eða í þann veginn sem atburðarásin fer af stað. Síðan skapast ákveðin spenna í atburðarásinni eða átök sem ná hápunkti sínum eða risi og síðan verður ákveðin lausn. Sjaldnast er skýr aðgreining á milli kynningar og átaka heldur fléttast þetta tvennt saman í frásögn. Átök geta falist í misskilningi og andstreymi sem sögupersónurnar verða fyrir og lausn er sömuleiðis margbreytileg. Sögupersóna deyr, elskendur ná saman, lausn finnst á morðgátu og svo framvegis. Þessa skilgreiningu er einnig hægt að nota á smásögur. Stuttar smásögur eru þó oft svipmyndir ákveðinna atburða eða atvika í lífi persóna og þá oft án kynningar, sérstaklega á það þó við um yngri smásögur sem stundum eru mjög stuttar og oft kallaðar örsögur. 

Þessi þrískipta bygging á einnig við um fleiri ritsmíðar, svo sem greinar og ritgerðir sem skiptast í inngang, meginmál og niðurlag. Allir textar, bæði fræðilegir og skáldskaparlegs eðlis, skptast svo upp í enn minni einingar, málsgreinar og efnisgreinar. 

Málsgrein.

Málsgrein er hugtak, skilgreint út frá setningarfræðilegum þáttum. Málsgrein er á milli tveggja punkta, hún getur verið samsett af aðeins einni setningu, oftast fleirum og þá bæði aðalsetningum og aukasetningum Í hverri málsgrein þarf að vera að minnsta kosti ein aðalsetning. 

Hildur fór í bíó í gær. (Ein setning jafngildir einni gmálsgrein). 

Hildur fór í bíó í gær / af því að hana langaði til að sjá Batmanmyndina / sem er ein af bestu myndum sumarsins. (Þrjár setningar eru ein málsgrein). 

Varast ber að hafa málsgreinar of langar. Þær verða þá stundum klúðurslegar og geta valdið misskilningi. Það krefst mikillar færni að skrifa langar málsgreinar svo vel fari. 

Efnisgrein.

Efnsigreinar eru afmarkaðar með greinaskilum. Hver efnisgrein myndar ákveðna heild og fjallar um eina meginhugmynd. Hún er nokkurs konar örritgerð, hefur inngang, meginmál og niðurlag. Ritgerðir og greinar eru byggðar upp á nokkrum efnisgreinum og fjallar þá hver efnisgrein um einn afmarkaðan efnisþátt, eina röksemd eða útskýringu á aðalefninu. Efnisgrein er oftast byggð upp á nokkrum málsgreinum. Það fer nokkuð eftir efni og aðstæðum hversu langar efnisgreinar eru og ekki eru neinar ákveðnar reglur til um það. Í hverri efnisgrein er oftast eitt lykilatriði eða lykilsetning. Þetta má sjá í eftirfarandi dæmi frá Pétri Gunnarssyni: 

Drengurinn átti til að rífa sig upp um miðjar nætur með hlustaverk og sífra þangað til maðurinn dróst á lappir og fór með hann fram í stofu þar sem hann lét fallast í djúpan stól. (inngangur) Samstundis hvolfdi sér yfir hann geigurinn og kepptist við að draga upp hverja myndina annarri svartari. Barnið hins vegar var ekki fyrr komið á gólfið en það skreið inn í leikfangalandið og byrjaði að starfa á umhverfinu. Eftir nokkur andartök var enginn hlutur lengur kjur, öllu velt við og skoðað í krók og kima með þessu offorsi sem nýju lífi er gefið. (meginmál) Smátt og smátt hætti maðurinn að húka og lyftist í sætinu. Hægt byrjuðu þung tjöld að þokast frá nóttinni. (niðurlag). 

Hér er ein efnisgrein sem skiptist í sex málsgreina sem efnislega má skipta í inngang (drengurinn vaknar um nætur), meginmál (barnið leikur sér / faðirinn hefur þungar hugsanir) og niðurlag (það birtir og kemur dagur og þá hverfur um leið ótti mannsins og þunglyndi). Lykilsetningar og lykilatriði eru skáletruð. Hér má segja að lykilatriðið sé fóglið í niðurlagsorðunum eða krafti hins nýja lífs (barnsins) og hins nýja dags. 


Síðast breytt: mánudagur, 4. september 2023, 9:29 AM