1. Útdráttur  

Útdráttur er skrifaður síðastur, en er staðsettur fremst í verkefninu. Hann á ekki að vera lengri en 150 orð og á að lýsa rannsókninni í stuttu máli. Upplýsingar um markmið, þátttakendur, framkvæmd, niðurstöður og ályktun komi fram. 

  1. Inngangur/Fræðilegur kafli -

Það  má hugsa þennan kafla sem hálfgerða ritgerð sem leiðir að rannsókninni ykkar. Í inngangi eiga að koma fram upplýsingar um fyrri rannsóknir á sviðinu, skilgreiningar á hugtökum og nánari útskýringar á þeim. Kaflinn á að hefjast á almennri umfjöllun en eftir því sem líður á kaflann verður umfjöllunin sérhæfðari og nákvæmari. Inngangur endar á markmiðum rannsóknar og þeirri rannsóknartilgátu sem er sett fram. Hugsi maður efnislega umfjöllun myndrænt á hún að líkjast síló eða trekt. 

  1. Aðferð - aðferðarkafli hefur undirkaflana: 

    1. Þátttakendur - allar upplýsingar um þátttakendur sem eru nauðsynlegar fyrir rannsóknina og eru innan persónuverndarsjónarmiða. Fjöldi, aldur, menntun, kyn og aðrir þættir sem skipta máli. 

    2. Rannsóknarsnið - hérna er sagt frá því hvers konar rannsókn er gerð. Er rannsóknin eigindleg eða megindleg? Er þetta viðtalsrannsókn, áhorfsrannsókn eða tilraun. Hver er frumbreyta og hver er fylgibreyta? Þessum spurningum þarf að svara hérna í samræmi við það sem hentar rannsókninni. 

    3. Mælitæki - hérna er sagt frá því hvaða mælitæki voru notuð í rannsókninni. Í raun öllum þeim tækjabúnaði sem er notaður. Hvort sem um er að ræða blað og blýant, forrit, síma  eða hvað annað. 

    4. Framkvæmd - í þessum kafla kemur nákvæmlega fram frá því hvernig rannsóknin var framkvæmd. Afar mikilvægt er að þessi kafli sé mjög nákvæmur. 


  1. Niðurstöður 

Í niðurstöðukaflanum koma fram hráar niðurstöður. Það er, þær eru látnar standa einar og sér án allrar túlkunar eða tengingar við fyrri rannsóknir. Sé um megindlega rannsókn að ræða eru hér settar inn töflur, gröf og önnur tölfræði. Ef um eigindlega rannsókn er að ræða er hér sagt óhlutlægt frá því sem kom fram í rannsókninni. Passa að það sé engin túlkun hérna, bara „kaldar“ staðreyndir.

  1. Umræða 

Í umræðukaflanum eru niðurstöður rannsóknarinnar ígrundaðar, tengsl og líkindi við fyrri rannsóknir skoðuð og ályktun sett fram. Athugið að í þessum kafla er yfirleitt tengt við þær rannsóknir sem var fjallað um í innganginum. 

6. Heimildir 

Heimildir skráðar samkvæmt þeirri hefð sem gengur og gerist í því fagi sem þið eruð að vinna innan. 

7. Viðauki/ar 

Ef efni er sett í viðauka, svo sem spurningalistar eða annað slíkt sem er nauðsynlegt að fylgi verkefninu, á viðaukinn að vera alveg aftast. Viðaukum er svo oftar en ekki gefið kenninúmer - viðauki 1, viðauki 2 og svo framvegis, allt eftir því hversu mikið efni þarf að fylgja. Athugið að aðeins eitt efnisatriði á heima í hverjum viðauka. Til dæmis ef á það setja spurningalista, bréf til þátttakenda og leyfi frá siðanefnd í viðauka þyrfti að setja inn þrjá viðauka; Viðauka 1 (spurningalista), Viðauka 2 (bréf til þátttakenda) og svo Viðauka 3 (leyfi frá siðanefnd). Viðaukar eiga að vera í efnisyfirliti líkt og aðrir kaflar verkefnisins. 




Síðast breytt: fimmtudagur, 27. janúar 2022, 1:03 PM