Áreiðanleiki netheimilda

Við ritgerðarskrif er nauðsynlegt að nota heimildir af fjölbreyttum toga. Í mörgum tilvikum er viðeigandi, jafnvel freistandi, að nota heimildir sem finna má á internetinu. Þá er áríðandi að muna að hver sem er getur sett upplýsingar inn á netið og velja sér heimildir með gagnrýnu hugarfari. Varast skal að velja bara fyrstu heimildina sem kemur upp þegar leitað er á leitarvél á borð við Google. Hafa skal í huga að leitarvélar eru hannaðar til þess að kortleggja notendur sína og hið sama gildir reyndar um hina ýmsu samfélagsmiðla. Fyrsta heimildin sem kemur upp á leitarvélinni er því ekki endilega besta heimildin. Hún er það sem leitarvélin „telur“ henta notandanum og áhugasviði hans.

Að ýmsu er að hyggja þegar meta á gildi heimildar. Hér eru tínd til nokkur atriði sem taka þarf mið af:

  • Er höfundur að heimildinni? Er hann til í raun og veru?

  • Er höfundur fræðimaður eða er hún skrifuð af leikmanni eða nemanda í grunnskóla, framhaldsskóla eða á grunnstigi háskóla (BA, BS, B.Ed)?

  • Er vísað í heimildir? Ef svo er, eru þær heimildir áreiðanlegar? Er samræmi milli heimildanna?

  • Er heimildin ritrýnd? Birtist hún í ritstýrðu efni (vef, tímariti eða bók)?

  • Hvenær er heimildin skrifuð? Er vefsíðan gömul og/eða úrelt?

  • Á hvaða síðu birtist heimildin? Sem dæmi má nefna heimasíðu opinberrar stofnunar, bloggsíðu, spjallborð, fréttavefi og Vísindavefinn.

  • Inniheldur vefsíðan áróður eða er auglýsing fyrir einhverja vöru? Standa öfgasamtök að henni?

  • Á höfundur heimildarinnar fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna að gæta?

  • Er orðalag textans gildishlaðið eða í slagorðastíl?

Við þetta má bæta að okkur hættir til að taka þær heimildir trúanlegar sem eru samhljóða skoðunum okkar og erum þá ekki eins gagnrýnin á uppruna þeirra. Loks má nefna að val á leitarvél getur haft áhrif á úrval, og þar með gæði, þeirra heimilda sem upp koma við leit á netinu.

Á vefsíðu Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns-og upplýsingafræða má finna kennsluvef í upplýsingalæsi þar sem hægt er að lesa sér betur til um þetta. Slóðin er: 

http://wayback.vefsafn.is/wayback/20170505093335/http://www.upplysing.is/netheimildir/

Ostatnia modyfikacja: środa, 23 sierpnia 2023, 13:43