7. október - 13. október
Section outline
-
Munið að smella á vikuna til að opna hana
Í þessari viku rifjum við upp einkenni eddukvæða og lesum fjórar goðsögur sem varðveittar eru sem eddukvæði.
Lesefni:
- Glærur um eddukvæði
- Rígsþula
- Lokasenna
- Þrymskviða (Hamarsheimt)
- Skírnismál
Verkefni:
- 5. Moodle-verkefni úr lesefni annarinnar, úr goðsögum Gylfaginningar og Skáldskaparmála, opnast mánudaginn 7. október kl. 8:00 og lokast á miðnætti mánudaginn 14. október.
-
Rígsþula er 46 erinda frásagnarkvæði sem er varðveitt í Ormsbók Snorra-Eddu en það vantar reyndar aftan á kvæðið þar sem blað vantar í bókina. Bragarháttur kvæðisins er lítillega blandaður, meginuppistaðan er ort undir fornyrðislagi en áhrifa frá kviðuhætti og ljóðahætti gætir líka. Margt í hugmyndum Rígsþulu um rétt höfðingja til eiginkvenna gestgjafa sinna og uppruna ólíkra stétta á sér hliðstæður í gelískri menningu á Bretlandseyjum. Sú þrískipta stéttskipting sem finna má í kvæðinu hefur líka verið tengd við almennn einkenni germanskra og indóevrópskra samfélaga.
-
Lokasenna er 65 erinda samtalskvæði undir ljóðahætti með rammafrásögn í lausu máli. Kvæðið er aðeins varðveitt í Konungsbók eddukvæða að einu erindi undanskildu sem finna má í Gylfaginningu. Kvæðið hentar vel til leikræns flutnings. Í Lokasennu er fjallað á gamansaman hátt um líf goðanna og hefur sumum þótt það til marks um að höfundur þess hafi verið kristinn. Hafa ber þó í huga að gamansemi og virðing fyrir guðunum getur vel farið saman og er ásatrú þá ekki einsdæmi hvað það varðar.
-
Þrymskviða (stundum nefnd Hamarsheimt) er 32 erinda frásagnarkvæði sem aðeins er varðveitt í Konungsbók eddukvæða. Kvæðið segir frá því hvernig Þór tekst að endurheimta hamar sinn, Mjölni, eftir að jötnar höfðu rænt honum. Undirtónninn er gamansamur og goðin sýnd í skoplegu ljósi. Kvæðið hefur verið talið tilvalið til leikræns flutnings enda hverfist frásögnin um helsta bragð gamanleikja frá fornu fari, þ.e. að klæða karl í kvenmannsföt.
Kvæðið er ort undir fornyrðislagi, sem m.a. má finna á heimssögukvæðinu Völuspá.
-
Kvæðið segir frá því hvernig hjónaband Freys og jötnameyjarinnar Gerðar Gymisdóttur er tilkomið. Kvæðið er alls 42 erindi á samtalsformi, ort undir ljóðahætti og galdralagi. Sama umfjöllunarefni er að finna í Snorra-Eddu en þeirri útgáfu ber ekki að öllu leyti saman við útgáfu Konungsbókar. Kvæðið hefur trúlega verið flutt samhliða helgileik og hugsanlega hefur síðasti hluti þess verið án munnlegs flutnings, aðeins leikinn, enda lýkur kvæðinu án þess að hjónabandið hafi verið fullkomnað.
-
Verkefnið er einstaklingsverkefni. Engin tímamörk eru á verkefninu en þið fáið aðeins eina atlögu að því. Verkefnið er opið í viku.