Í áfanganum verður hugtakið afþreyingarbókmenntir kynnt, rætt og skoðað í samhengi við bókmenntasöguna og menningu hvers tíma og álitamál. Farið verður yfir flokkun bókmennta og helstu bókmenntastefnur kynntar. Einnig verður rýnt í mismunandi greinar bókmennta, t.d. glæpasögur, ástarsögur, fantasíur, hrollvekjur o.fl. og skoðuð tenging þeirra við aðra miðla, s.s. sjónvarp, kvikmyndir, leikhús, tölvuleiki o.s.frv. Fjallað verður um afþreyingarbókmenntir í tengslum við fjöldaframleiðslu, markaðsmál og tækni. Unnin verða margvísleg verkefni þar sem lögð er áhersla á fjölbreyttar vinnuaðferðir, sjálfstæð vinnubrögð, skilvirka þekkingarleit, kunnáttu í meðferð og frágangi heimilda og skapandi hugsun. Megináhersla áfangans er þó á lestur og umræður um bækur.